Frá þessu greinir Morgunblaðið og vitnar í dómsmálaráðherrann sjálfan, Jón Gunnarsson.
Jón sagði í samtali við blaðið í gær að lögregla hefði þegar hafið mótun verklagsreglna um rafbyssur og undirbúning þjálfunar í notkun þeirra. Þá væri verið að undirbúa innkaup vopnanna en þau færu líklega í útboð.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins var reglugerðin undirrituð skömmu fyrir áramót, sem vekur athygli þar sem ráðherra greindi fyrst frá fyrirætlunum sínum um að veita lögreglu umrædda heimild 30. desember.
Það gerði hann í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu.
Svo virðist sem lítið hafi verið rætt um ákvörðun ráðherra meðal stjórnarflokkanna en Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna, sagði í samtali við Vísi sama dag að tíðindin kæmu sér á óvart og það væri hennar mat að meiri umræður þyrftu að eiga sér stað.
„Ég hef áður lýst yfir efasemdum um það hvort að aukinn vopnaburður lögreglu yrði til góðs. Ég skil alveg ákall lögreglu um öryggi þeirra og ég tel mikilvægt að lögreglunni eins og öllum öðrum líði vel í starfi en ég held að það sé líka mikilvægt að almennir borgarar beri traust og telji sig örugga í samskiptum við lögregluna.“
Þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við RÚV að öllu máli skipti hvernig eftirliti með vopnaburði lögreglu yrði háttað, áður en henni yrðu veittar auknar heimildir.
Málið yrði rætt í ríkisstjórn og eðlilegt að einhver umræða færi fram á Alþingi sömuleiðis.
Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir fréttastofu eru fleiri landsmenn á móti auknum vopnaburði lögreglu en fylgjandi. Aðeins 8,1 prósent sögðust mjög hlynnt og um 20 prósent fremur hlynnt auknum vopnaburði en 19,3 prósent sögðust mjög andvíg og 22,5 prósent fremur andvíg.