Körfubolti

Tómas undir hnífinn eftir tveggja ára glímu við meiðsli

Sindri Sverrisson skrifar
Tómas Þórður Hilmarsson spilaði bikarúrslitaleikinn gegn Val á laugardag en fór svo í aðgerð á báðum fótum á mánudaginn.
Tómas Þórður Hilmarsson spilaði bikarúrslitaleikinn gegn Val á laugardag en fór svo í aðgerð á báðum fótum á mánudaginn. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Körfuboltamaðurinn Tómas Þórður Hilmarsson verður ekki með Stjörnunni næstu sex vikurnar hið minnsta en hann fór í aðgerð á báðum fótum eftir tapið gegn Val í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi.

Samkvæmt tilkynningu frá Stjörnunni hefur Tómas verið að glíma við þrálát meiðsli síðastliðin tvö ár sem hafa háð honum talsvert. Erfitt hafi reynst að finna orsök þeirra en nú virðist sem það hafi tekist.

Tómas verður því tæplega mikið meira með Stjörnunni í deildarkeppni Subway-deildarinnar sem lýkur 30. mars en vonir standa eflaust til þess að hann geti í kjölfarið beitt sér að fullu í úrslitakeppninni í vor, komist Stjarnan í hana.

Tómas var framlagshæstur Stjörnumanna í bikarúrslitaleiknum á laugardag en hann skoraði þar 15 stig og tók átta fráköst.

Stjörnumenn mæta næst Keflvíkingum á föstudagskvöld en Stjarnan er í 8.-9. sæti deildarinnar ásamt Hetti, með 10 stig eftir 12 leiki af 22 í deildarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×