Innlent

Gular viðvaranir taka gildi ein af annarri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Veðurstofa hefur varað við flóðum, snjóflóðum og krapaflóðum.
Veðurstofa hefur varað við flóðum, snjóflóðum og krapaflóðum. Vísir/Egill

Gular viðvaranir hafa nú tekið gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum og á Miðhálendinu. Þá eru í gildi viðvaranir vegna hættu á flóðum, snjóflóðum og krapaflóðum.

Veðurstofa spáir suðaustan 15 til 23 m/s og snjókomu á köflum sunnan- og vestanlands en síðar rigningu á láglendi. Lengst af þurrt norðaustantil. Snýst í sunnan 10 til 18 kringum hádegi með talsverðri rigningu en úrkomuminna á Norður- og Austurlandi. Hiti víða á bilinu 5 til 10 stig síðdegis.

Minnkandi suðvestanátt á morgunmeð él eða skúrum, 5 til 13 m/s síðdegis en lengst af þurrt norðaustanlands. Kólnandi veður, hiti yfirleitt í kringum frostmark seinnipartinn. Hvessir og bætir í él vestantil annað kvöld, segir Veðurstofa.

Þá má á vef Veðurstofu finna eftirfarandi athugasemd veðurfræðings frá því klukkan 5 í morgun:

„Spáð er suðaustan hvassviðri eða stormi sunnan- og vestanlands í dag með úrkomu og hlýnandi veðri. Sjá gular vindviðvaranir.

Snýst í sunnan strekking eða allhvassan vind um hádegi með talsverðri rigningu sunnan- og vestantil og hlýindum á öllu landinu. Um er að ræða mikil umskipti í veðri frá kuldatíðinni sem verið hefur og gefnar hafa verið út gular viðvaranir vegna asahláku af því tilefni.“

Viðbragðsaðilar hafa hvatt fólk til að huga að niðurföllum og eins að því að hreinsa snjó og grýlukerti af húsum. Þá hefur verið varað við því að mikil hálka geti myndast á vegum og gangstéttum. Vegagerðin varar við flughálku.

Fylgst verður náið með rennsli í Ölfusá í dag og á morgun en klakastíflur eru í ánni í grennd við Ölfusárbrú og Laugdælaeyju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×