Mikill leki varð í Fossvogsskóla í gær en skólahaldi var aflýst á miðstigi vegna lekans og um 150 börn voru send heim að sögn skólastjóra Fossvogsskóla en frá þessu var sagt í fréttum okkar í gær. Þak hússins er fremur nýtt og því kom á óvart að það hélt ekki vatninu. Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá borginni segir lekann mikil vonbrigði.
„Já þetta eru náttúrulega mikil vonbrigði í þessari byggingu sem er nýbúið að taka alla í gegn að þetta skuli koma upp. Þó að aðstæðurnar hafi vissulega verið sérstakar. Þetta er náttúrulega hlutur sem við munum fara yfir strax eftir helgi til að finna út úr því hvað veldur. Hvað sem það svo sem er. Hvort það er tengt hönnun eða framkvæmd eða eftirliti með framkvæmdum og þess háttar.“
Óánægja foreldra sé skiljanleg en kennsla hefst strax eftir helgi.
„Mjög svo skiljanlegt. Þetta er hins vegar óhapp sem kemur og eins og ég sagði áðan þá munum við kafa ofan í það til þess að komast að því hvað hefur farið þarna úrskeiðis. Það er hins vegar stefnt að því að kennsla muni hefjast samkvæmt stundaskrá strax á mánudagsmorgun í byggingunni. Það er unnið að því hörðum höndum um helgina að koma þessu í lag svo það verði hægt.“
Þetta eigi ekki að gerast þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.
„Við verðum að tryggja að þrátt fyrir þessar aðstæður sem voru uppi þá á þetta ekki að gerast. Við verðum þá að fara í gegnum það hvað það er sem klikkar.“