Miðsvæðis í borginni var tilkynnt um tvo menn sem höfðu lokað sig inni á salerni hótels en þeir voru á bak og burt þegar lögregla mætti á staðinn. Sömu sögu var að segja um útkall sem lögregla sinnti vegna grunsamlegra mannaferða í garði en enginn fannst við leit.
Þá barst lögreglu tilkynning um mann með öxi, sem var sagður vera að valda skemmdum, en í tilkynningu segir aðeins að engin öxi hafi fundist. Málið sé þó í rannsókn.
Einn var handtekinn á veitingastað þar sem hann var með ógnandi hegðun, sá var vistaður í fangageymslu þar sem ekki reyndist unnt að ræða við hann. Þá var annar vistaður í fangageymslu vegna ölvunar og ónæðis og enn einum vísað út af bar þar sem hann hafði verið til vandræða.
Annars staðar í höfuðborginni barst tilkynning um ungmenni að skemma rútu. Skemmdir eru sagðar hafa verið töluverðar og er málið í rannsókn.
Nokkrir voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.