Fanchini varð 37 ára gömul. Hún keppti á þrennum Vetrarólympíuleikum, árin 2006, 2010 og 2014, en varð að hætta við leikana í Pyeongchang fyrir fimm árum eftir að hún greindist með krabbameinið.
Fanchini náði fjórum sinnum að komast á verðlaunapall á heimsbikarmótum og vann tvisvar til gullverðlauna á slíkum mótum, í bæði skiptin í bruni, árin 2005 og 2015.
„Eftir að hafa glímt við alvarleg veikindi féll Elena Fanchini frá á heimili sínu í Solato,“ sagði í tilkynningu ítalska skíðasambandsins.
Á meðal þeirra sem minnst hafa Fanchini er bandaríska skíðadrottningin Mikaela Shiffrin sem skrifaði á Twitter, eftir að hafa fengið silfur í risasvigi á HM í gær:
„Þessi dagur var fullur af tilfinningum. Það er svo margt sem að mig langar til að deila… en það sem vegur þyngst er fráfall Elenu Fanchini.
Ég sendi Fanchini-fjölskyldunni, sem haft hefur svo mikil áhrif á íþróttina og heiminn okkar með ástríðu sinni og góðmennsku, mínar samúðarkveðjur. Hjarta mitt er einnig hjá ítalska landsliðinu sem að er í sárum núna,“ skrifaði Shiffrin en yngri systur Fanchini, Nadia og Sabrina, hafa einnig keppt fyrir hönd Ítalíu.