Fótbolti

Conte snýr ekki aftur til vinnu fyrr en hann hefur náð fullum bata

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte mun ekki stýra Tottenham í næstu leikjum.
Antonio Conte mun ekki stýra Tottenham í næstu leikjum. Marco Canoniero/LightRocket via Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, verður ekki á hliðarlínunni þegar liðið tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi sunnudag. Hann verður frá vinnu þar til hann hefur náð fullum bata eftir að hafa gengist undir aðgerð þar sem gallblaðran var fjarlægð úr honum.

Þessi 53 ára gamli Ítali gekkst undir aðgerðina fyrir tveimur vikum síðan og var ekki með liðinu er Tottenham vann 1-0 sigur gegn Englandsmeisturum Manchester City þann 5. febrúar síðastliðinn. Hann var þó mættur aftur á hliðarlínuna í 4-1 tapi gegn Leicester sex dögum síðar og stýrði liðinu einnig í 1-0 tapi gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn.

Í færslu á Instagram-síðu sinni í dag sagði þjálfarinn hins vegar frá því að hann hafi vanmetið aðgerðina og að hann þurfi nú að taka sér lengra frí.

„Því miður vanmat ég þessa aðgerð, sem var engin venjuleg aðgerð, heldur skyndilegt og alvarlegt neyðartilvik,“ segir Conte í færslunni.

„Líkami minn hefur nú þurft að gjalda fyrir óþolinmæðina í mér og nú neyðist ég til að taka mér frí þar til ég hef náð fullum bata. Þeir sem þekkja mig vita hversu erfitt það er fyrir mig, en það er nauðsynlegt.“

Tottenham hefur ekki sagt til um hvenær þjálfarinn snýr til baka, en félagið mætir West Ham næstkomandi sunnudag, Chelsea viku síðar og Sheffield United í FA-bikarnum þann 1. mars. Aðstöðarþjálfarinn Cristian Stellini stýrir liðinu í fjarveru Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×