Valencia var með betri liðum Evrópu í kringum aldamót. Liðið komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu, varð spænskur meistari og allt lék í lyndi. Undanfarin ár hafa hins vegar verið mögur. Tíðar þjálfarabreytingar, bestu leikmenn liðsins seldir og óspennandi menn fengnir inn í staðinn.
Gennaro Gattuso, sem var ráðinn þjálfari liðsins síðasta sumar, var látinn fara á dögunum og í hans stað kom Rúben Baraja. Þó sá sé einn dáðasti sonur Valencia þá virðist ekki mikið í hann spunnið sem þjálfara.
Baraja og lærisveinar hans mættu Getafe í kvöld og töpuðu sanngjarnt 1-0. Borja Mayoral með sigurmarkið á 82. mínútu leiksins.
FT #GetafeValencia 1-0
— LaLiga English (@LaLigaEN) February 20, 2023
win for @GetafeCF! #LaLigaSantander pic.twitter.com/d7pSMupGcD
Eftir tap kvöldsins er Valencia fallið niður í 19. sæti en Getafe fór úr 19. sætinu og upp í það 16. með sigrinum. Sem stendur er fallbaráttan í La Liga galopin en Valencia er í næstneðsta sæti með aðeins 20 stig en Sevilla er í 12. sæti með 25 stig.
Það getur því enn allt gerst en Valencia, sem hefur nú tapað fimm deildarleikjum í röð, virðist stefna hraðbyr á næstefstu deild.