Fjögur af sex liðum í riðlinum fara áfram í 16-liða úrslit og er Valur sem stendur í 3. sæti með sjö stig. PAUC og Ferencvárosi frá Ungverjalandi eru með stigi minna í sætunum þar fyrir neðan. Valur má því ekki við að tapa í kvöld þar sem PAUC myndi þá stökkva upp fyrir Valsara í töflunni en að sama skapi myndi sigur tryggja Val farseðilinn í 16-liða úrslit.
„Maður finnur það bara, þetta er öðruvísi. Það er allt meira og stærra en við erum orðnir sjóaðir í þessu. Þetta snýst samt sem áður bara um handboltann, ná upp góðum leik og vinna leikinn. Það breytist ekkert,“ sagði þjálfari Vals.
Valur féll nokkuð óvænt úr leik gegn Stjörnunni í bikarnum á föstudaginn var.
„Það hefur alltaf áhrif að tapa, það er aldrei gott. Í stóra samhenginu er oft ákveðin fegurð í þessu mótlæti í íþróttum. Oft þar sem hlutirnir gerast. Við höfum ekki upplifað mikið af þessu undanfarið. Þurfum bara að sýna að við erum alvöru lið sem tekst á við þetta og mætum sterkari til leiks. Það er ekkert um annað að ræða eða velja,“ sagði Snorri Steinn að endingu.
Leikur Vals og PAUC verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst klukkan 19.15.