Davíð Rúnar Gunnarsson slökkvistjóri staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að um sé að ræða tvíbýli en eldurinn kviknaði í eldhúsi á neðri hæðinni.
„Slökkvilið Tálknafjarðar er mjög fljótt á staðinn, nær að brjóta upp hurð og slökkva eldinn í eldhúsinu. Það er mjög mikill reykur í öllu húsinu. Sem betur fer var enginn heima, hvorki uppi né niðri. Húsið var alveg mannlaust,“ segir Davíð.
Enn er unnið að því að reykræsta húsið og ljóst er að miklar reykskemmdir eru á neðri hæðinni.
Vísir ræddi við eiganda íbúðarinnar sem staddur er í Reykjavík. Hann segir íbúðina hafa verið mannlausa þegr eldurinn kom upp og séu því einhverjar líkur á að kviknað hafi í út frá rafmagni. Það sé þó óljóst, en hann hafi fengið upplýsingar um að lögregla muni fá vettvanginn afhentan til rannsóknar seinni partinn.
Gríðarmikill eldur kom upp á Tálknafirði í síðustu viku þegar kviknaði í húsi fiskeldisfélagsins Arctic Fish í Tálknafirði.
Ertu með myndir af vettvangi? Endilega sendu okkur á ritstjorn@visir.is.