Enski boltinn

Fær rúmlega tíu milljarða frá Puma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jack Grealish verður í takkaskóm frá Puma næstu fimm ár hið minnsta.
Jack Grealish verður í takkaskóm frá Puma næstu fimm ár hið minnsta. Harry Langer/Getty Images

Jack Grealish, leikmaður Englandsmeistara Manchester City og enska landsliðsins, hefur skrifað undir fimm ára skósamning við Puma. Samningurinn gefur honum rúmlega tíu milljarða íslenskra króna í vasann.

Hinn 27 ára gamli Grealish hefur verið í lykilhlutverki hjá Manchester City á yfirstandandi leiktíð. Hann hefur komið við sögu í 32 leikjum í öllum keppnum, skorað þrjú mörk og gefið sex stoðsendingar.

Grealish hefur þó ekki aðeins verið að gera það gott innan vallar að undanförnu en á síðasta ári skrifaði hann undir samning við tískumerkið Gucci. Er hann sérlegur erindreki merkisins en ekki er vitað hversu mikið Grealish fær í sinn vasa fyrir samstarfið.

Aðra sögu að segja af nýjum skósamningi hans við Puma. Samningurinn gildir til fimm ára og mun færa Grealish tólf milljónir punda hvert ár eða samtals 60 milljónir punda. Það gerir rúmlega tíu milljarða íslenskra króna. Er þetta stærsti skósamningur sem breskur leikmaður hefur fengið.

Grealish og liðsfélagar hans í Man City eru í eltingaleik við topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Arsenal. Þá er liðið í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem og átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×