Ríkisstjórinn Ron DeSantis, sem hefur verið orðaður við forsetaframboð, sagðist í gær styðja frekari takmarkanir á aðgengi að þungunarrofi. Pólitískt er málið flókið þar sem 64 prósent Flórídabúa eru þeirrar skoðunar að aðgengi að þungunarrofi eigi að vera frjálst, að minnsta kosti í flestum tilvikum.
Meirihluti Bandaríkjamanna er sama sinnis.
Eins og sakir standa er þungunarrof bannað í Flórída eftir fimmtándu viku meðgöngu, undantekningalaust. Engar undanþágur gilda um þau tilvik þar sem þungunin er til komin vegna nauðgunar eða sifjaspella.
Frumvörpin sem nú liggja fyrir þinginu gera ráð fyrir að þungunarrof verði bannað eftir sjöttu viku, nema þegar um er að ræða þungun sökum nauðgunar eða sifjaspella eða hættu sem steðjar að heilsu konunnar.
Í þeim tilvikum verður heimilt að framkvæmda þungunarrof fram að fimmtándu viku.
Í frumvörpunum er einnig kveðið á um bann gegn uppáskrift þungunarrofslyfja eftir símaviðtal og krafa gerð um að þungunarrof sé framkvæmt af lækni. Læknar sem brjóta gegn ákvæðum frumvarpsins munu eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.
Demókratar hafa gagnrýnt frumvörpin harðlega og meðal annars vakið athygli á því að breytingarnar munu einnig hafa áhrif á konur frá Louisiana, Mississippi og Alabama, sem hafa neyðst til að sækja þungunarrofsþjónustu til Flórída.