Drengurinn hafði níu millímetra skammbyssu með sér í bakpoka í Richneck-grunnskólann í bænum Newport News 6. janúar. Hann dró vopnið upp og skaut Abigail Zwerner, 25 ára gamlan kennara sinn, í höndina og brjóstið eftir það sem lögregla hefur lýst sem „deilum“ þeirra. Hún komst lífs af.
Howard Gwynn, saksóknari í Newport News, segir ólíklegt að drengurinn verði ákærður enda sé það erfiðleikum bundið að rétta yfir sex ára gömlu barni sem sé of ungt til þess að skilja réttarkerfið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
„Markmið okkar er ekki að gera bara eitthvað eins hratt og hægt er. Þegar við höfum farið ofan í saumana á öllum staðreyndum málsins ákærum við hvern þann eða hverja þá sem við teljum hafið yfir skynsamlegan vafa að hafi framið glæp,“ sagði Gwynn við NBC-sjónvarpsstöðina.
Sagður hafa skotið kennarann af ásettu ráði
AP-fréttastofan segir að lög í Virginíu heimili að börn geti verið sótt til saka. Almennt sé þó litið svo á að börn yngri en sjö ára séu of ung til að vera ákærð þar sem þau séu ekki fær um glæpsamlegan ásetning. Saksóknarar þyrftu enn fremur að geta sýnt fram á að barnið hafi áttað sig á alvarleika brotsins, skipulagt það og framkvæmt.
Byssan er í eigu móður drengsins sem keypti hana löglega, að sögn lögreglu. Lögmaður hennar fullyrðir að byssunni hafi verið læst og hún geymd í hárri skápskúffu.
Zwerner stefndi skólayfirvöldum vegna atviksins. Drengurinn skaut hana einu sinni en kúlan hæfði hana bæði í höndina og brjóstið. Henni tókst að smala hinum börnunum út úr skólastofunni áður en hún var flutt í flýti á sjúkrahús.
Lögregla segir að drengurinn hafi skotið kennarann viljandi. Enginn fyrirvari hafi verið að því og engin átök á milli kennarans og drengsins.
Fjölskylda drengsins sagði í yfirlýsingu eftir árásina að hann glímdi við alvarlega fötlun. Foreldrar hans hafi þurft að fylgja honum í skólann og kennslustundir á hverjum degi samkvæmt meðferðaráætlun drengsins. Árásin átti sér stað fyrstu vikuna sem foreldrar hans voru ekki með honum í tíma.
Drengurinn er sagður njóta viðeigandi meðferðar á heilbrigðisstofnun.