Liðsmenn Dusty mættu þýska liðinu Sprout í morgun og var þar fljótt ljóst í hvað stefndi. Þjóðverjarnir höfðu mikla yfirburði og unnu að lokum öruggan sigur, 16-6.
Dusty fékk þó annað tækifæri til að halda vonum sínum á lífi þegar liðið mætti tapliðinu úr viðureign VISU og HAVU. Það voru liðsmenn VISU sem voru andstæðingar Dusty og þar var boðið upp á mun meira spennandi viðureign.
VISU virtist vera að klára sigurinn þegar liðið komst í 15-10, en liðsmenn Dusty unnu seinustu fimm loturnar og tryggðu sér þar með framlengingu.
Það voru þó liðsmenn VISU sem voru sterkari í framlengingunni og unnu að lokum nauman sigur, 19-16. Dusty er því úr leik í forkeppni Blast mótaraðarinnar, en VISU mætir HAVU í ákvörðunarleik um hvort liðið tryggir sér áframhaldandi þátttöku.