Innlent

Teitur Björn mun taka sæti Haraldar: „Nokkuð ó­vænt“

Atli Ísleifsson skrifar
Teitur Björn Einarsson sat á þingi á árunum 2016 til 2017.
Teitur Björn Einarsson sat á þingi á árunum 2016 til 2017. Aðsend

Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar, mun taka sæti Haraldar Benediktssonar á Alþingi eftir að sá síðarnefndi tekur við stöðu bæjarstjóra Akraness á næstu vikum. Teitur Björn segist spenntur fyrir verkefninu.

„Þetta er nokkuð óvænt, en ég er ánægður fyrir hönd íbúa Akraness að fá svona öflugan mann til bæjarstjóra. Ég óska að sjálfsögðu honum velfarnaðar í hans störfum,“ segir Teitur Björn í samtali við Vísi.

Greint var frá því í morgun að bæjarstjórn Akraness hafi samið við Harald um að taka að sér starfi bæjarstjóri þegar Sævar Freyr Þráinsson tekur við starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Sævar Freyr hættir sem bæjarstjóri í lok þessa mánaðar.

„Verkefnið er spennandi og ég er fullur tilhlökkunar. Ég hlakka sömuleiðis til samstarfs við íbúa Norðvesturkjördæmis,“ segir Teitur Björn.

Teitur Björn mun láta af störfum sem aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar samhliða þessum breytingum. Það muni skýrast fljótlega hvenær hann taki sæti Haraldar.

Teitur Björn Einarsson er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem flokkurinn náði inn tveimur mönnum í kosningunum 2021 – Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Harald Benediktsson.

Teitur Björn var í september síðastliðinn ráðinn aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar og var þá greint frá því að hann myndi sinna verkefnum á sviði sjálfbærni og þjóðaröryggismála auk þess að vinna að samhæfingu mála ásamt öðrum aðstoðarmönnum. Hann hefur áður starfað sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra og sem lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni. Þá sat á Alþingi á árunum 2016 til 2017.


Tengdar fréttir

Þing­maður ráðinn bæjar­stjóri Akra­ness

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar. Hann tekur við stöðunni af Sævari Frey Þráinssyni sem nýverið var ráðinn forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×