Sauli Niinisto, forseti Finnlands, er staddur í Ankara í Tyrklandi þar sem hann hitti Erdogan í dag.
Rúmir tíu mánuðir eru síðan Finnar og Svíar sóttu um aðild að NATO og gerðu þeir það vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríki NATO þurfa að samþykkja inngöngu nýrra meðlima en einungis Tyrkir og Ungverjar eiga eftir að samþykkja umsóknir Svía og Finna.
Tyrkir hafa ekki viljað samþykkja umsókn Svía. Tyrkir hafa krafist þess að fá sænska Kúrda framselda til Tyrklands og aðila sem þeir segja tengjast valdaránstilraun árið 2016. Bæði Finnar og Svíar hafa að einhverju leyti komið til móts við Tyrki og meðal annars aflétt vopnasölubanni sem sett var á Tyrki eftir innrás þeirra í Sýrland árið 2019.
Sjá einnig: Tyrkir sagðir ætla að samþykkja umsókn Finna
Búist er við því að þingið muni greiða atkvæði um umsókn Finna fyrir 14. maí, þegar tyrkneska þinginu verður slitið fyrir kosningar.
Niinisto sagðist í dag vonast til þess að Finnar gætu fengið aðild að NATO fyrir leiðtogafund sem halda á í Litháen í júlí.