Viðskipti innlent

Við­snúningur hjá Isavia á milli ára

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tekjur Isavia koma að mestu frá rekstri Keflavíkurflugvallar.
Tekjur Isavia koma að mestu frá rekstri Keflavíkurflugvallar. Vísir/Vilhelm

Isavia tapaði 617 milljónum króna á síðasta ári en félagið skilaði þó 5,2 milljörðum í rekstrarafkomu samanborið við 810 milljóna króna neikvæða rekstrarafkomu á síðasta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia þar sem lykiltölur úr ársuppgjöri fyrirtækisins eru kynntar. 

„Rekstrarafkoma samstæðu Isavia fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á árinu 2022 var jákvæð um 5,2 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 810 milljónir króna árið 2021. Tekjur jukust um 75% eða 15,7 milljarða króna milli áranna 2022 og 2021 og námu tekjurnar um 95% af tekjum ársins 2019. Farþegar um Keflavíkurflugvöll voru ríflega 6,1 milljón í fyrra samanborið við rúmlega 2,1 milljón árið 2021 og rúmar 7,2 milljónir farþega árið 2019 sem var síðasta heila rekstrarárið fyrir heimsfaraldur,“ segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir viðsnúning í rekstri var heildarafkoma fyrirtækisins neikvæð um 617 milljónir króna samanborið við jákvæða heildarafkomu upp á 321 milljónir króna árið 2021.

„Neikvæð gengisáhrif á langtímalán námu um 868 milljónum króna á árinu 2022 samanborið við jákvæð gengisáhrif upp á tæpa 2 milljarða króna árið á undan. Þá voru til staðar einskiptis vaxtatekjur upp á 2,8 milljarða króna árið 2021 vegna afgreiðslu virðisaukaskatts fyrri ára,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×