Fótbolti

Ákvörðun um framtíð Conte hjá Tottenham verði tekin fyrir helgi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte gæti verið á leið í langt sumarfrí.
Antonio Conte gæti verið á leið í langt sumarfrí. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Ákvörðun um framtíð ítalska knattspyrnustjóarns Antonio Conte hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham verður tekin í vikunni. Raunar greina hinir ýmsu miðlar frá því að ákvörðunin verði tekin í seinasta lagi á fimmtudaginn.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ítalans hjá félaginu eftir brösulegt gengi liðsins á tímabilinu. Stuðningsmenn Tottenham eru að horfa á enn eitt tímabilið án titils þar sem liðið er fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu og báðum bikarkeppnunum á Englandi.

Þá var Conte líklega ekki að vinna sér inn mörg stig hjá stjórnendum félagsins þegar hann lét allt og alla heyra það í langri ræðu á blaðamannafundi eftir 3-3 jafntefli liðsins gegn Southampton um liðna helgi.

Margir hafa því velt því fyrir sér hvort Conte sé einfaldlega að biðja um að láta reka sig, en heimildarmenn Sky Sports segja hins vegar að svo sé ekki. Samkvæmt þeim hafi þjálfarinn einungis verið að tjá skoðanir sínar á því sem gengur á innan félagsins, skoðanir sem hann hafi lengi setið á. Conte hafi ekki ætlað sér að ráðast á leikmenn eða stjórnarmeðlimi Tottenham.

Samningur Conte við Tottenham rennur út í lok tímabils, þó félagið hafi enn möguleika á að framlengja við Ítalann um eitt ár. Það verður þó að teljast ansi ólíklegt að einhverskonar framlenging sé í kortunum og margir telja að leiðir hans við félagið muni skilja mun fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×