Sport

„Fundum okkur ekki í kvöld og þeir spiluðu mjög vel“

Andri Már Eggertsson skrifar
Stiven Tobar Valencia skoraði þrjú mörk í kvöld
Stiven Tobar Valencia skoraði þrjú mörk í kvöld Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Stiven Tobar Valencia, leikmaður Vals, var svekktur eftir sjö marka tap gegn Göppingen 29-36. Stiven Tobar er sagður vera búinn að skrifa undir hjá Benfica en hann vildi lítið tjá sig um það.

„Við hleyptum þeim allt of mikið í gegnum miðjuna, við gerðum mikið af tæknifeilum, köstuðum boltanum út af og skotnýtingin okkar var ekki nógu góð í kvöld,“ sagði Stiven Tobar Valencia aðspurður hvað hann væri svekktastur með eftir leik.

Stiven var svekktur með öll mistökin sem Valur gerði og tók undir að Valsarar voru ólíkir sjálfum sér. 

„Við fundum okkur ekki í kvöld. Þeir spiluðu mjög vel og við vissum að allt þurfti að smella til að fá jákvæða niðurstöðu úr þessum leik.“

Stiven hrósaði varnarleik Göppingen sem var afar góður í kvöld og var svekktur með að hans lið fengu ekki fleiri hraðaupphlaup.

„Við vissum að við værum að mæta góðu varnarliði og við vissum að við þurftum að láta boltann ganga hratt til að komast í gegn. Það dugði ekki bara að taka eina hreyfingu og þá kæmist maður í gegn. Við vorum að elta allan tímann.“

„Okkar leikur snýst mikið um hraðaupphlaup og það er eitt helsta vopnið okkar en við náðum því ekki upp í kvöld.“

Stiven Tobar Valencia vildi lítið tjá sig um þann orðróm að hann væri búinn að semja við Benfica.

„Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Stiven Tobar Valencia að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×