Þetta kemur fram í svari Jóns við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um hvort ráðherra viðrað þá hugmynd við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að gerðar verði tilraunir með hugvíkkandi efni á þrjátíu föngum í íslenskum fangelsum.
Jón segir í svarinu að líkt og fram hafi komið í fjölmiðlum þá hafi hann átt óformlegt samtal við Kára þar sem þeir hafi meðal annars rætt þá þróun sem hafi átt sér stað innan geðlæknisfræðinnar er varðar meðferð þar sem notast er við hugvíkkandi efni.
Umræðan spratt upp í kjölfar viðtals Frosta Logasonar við Kára þar sem þeir ræddu um hugvíkkandi efni. Kári minntist þar á í framhjáhlaupi að Jón hafi viðrað við sig þá hugmynd hvort ekki gæti verið snjallt að gera tilraunir með efnin á til dæmis þrjátíu föngum í íslenskum fangelsum.
Ráðherrann leggur í svari sínu áherslu á að það sé ekki í verkahring dómsmálaráðherra að taka ákvarðanir um læknisfræðilegar tilraunir, þar sem hann vísar í forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Í samræmi við það hafi ekki verið sett af stað ein vinna innan ráðuneytisins hvað þetta varðar.
Þyrfti samþykki allra
Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við fréttastofu fyrir um mánuði að ekki yrðu gerðar tilraunir með hugvíkkandi efni á föngum án þess að samþykki allra aðila, þar á meðal vísindasamfélagsins, myndu liggja fyrir.
Sagðist hann opinn fyrir hugmyndinni en andleg vandamál væru mjög áberandi í fangelsum landsins og við því þurfi að bregðast.
Þá sagði Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, að yfirgnæfandi meirihluti geðlækna á Íslandi myndi aldrei samþykkja að taka þátt í rannsóknum á áhrifum hugvíkkandi efna á fanga vegna siðferðislegra sjónarmiða.