„Tilfallandi bloggari var fyrir helgi dæmdur til að greiða tveim blaðamönnum RSK-miðla um 1,5 m.kr. vegna bloggskrifa um aðild RSK-miðla að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma. […] Tjáningarfrelsið er sem sagt fyrir fáeina útvalda. Þeir sem andæfa ráðandi frásögn fjölmiðla og vekja athygli á lögleysunni hljóta verra af - til dæmis málssókn. Dómnum frá föstudag verður áfrýjað enda tekur engu tali að ekki megi segja á opinberum vettvangi að málsaðilar eigi aðild, beina eða óbeina,“ segir Páll Vilhjálmsson á bloggsíðu sinni.
Byrlun og stuldur á síma
Þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, stefndu Páli fyrir meiðyrði og kröfðust ómerkingar á tvennum ummælum á bloggsíðu hans á vefsvæði mbl.is
Ummælin sem Páll lét falla, og dæmd voru ómerk, voru af tvennum toga. Annars vegar voru það ummæli um að tvímenningarnir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina“ að því að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það ummæli Páls um að saksóknari gæfi út ákæru á hendur blaðamönnunum.
- Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, ... eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.
- Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september
Páll Vilhjálmsson hefur ítrekað fjallað um málið og ýjað að því að Þórður Snær og Arnar Þór hafi átt þátt í að Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið. Héraðsdómari taldi Pál hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar og ummælin því dæmd ómerk. Mat dómsins væri að um ærumeiðandi aðdróttun hafi verið að ræða, og í ummælunum fælist ólögmæt meingerð, sem væri þar af leiðandi skaðabótaskyld.
„RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn (nú Heimildin) eru fjármagnaðir af ríkinu. RÚV er á fjárlögum og Heimildin fær fjölmiðlastyrk úr ríkissjóði. Tilfallandi bloggari er launamaður. Lesendur hafa haft samband og spurt hvernig mætti leggja tilfallandi athugasemdum lið með fjárframlagi vegna málskostnaðar,“ segir Páll á bloggsíðu sinni að lokum, og bendir á þartilgerðan styrktarreikning.