Þórður Snær Júlíusson, annar ritstjóra Heimildarinnar, staðfestir við Vísi að Edda hafi látið af störfum í síðustu viku. Stjórnendur miðilsins ætli ekki að tjá sig frekar um brotthvarf hennar. DV taldi sig hafa heimildir fyrir því að Edda væri hætt fjölmiðlinum í gær.
Heimildin greindi frá því í tilkynningu föstudaginn 24. mars að Edda hefði upplýst ritstjórnina um að hún hefði ekki lýst stöðu sinni hjá fjármálafyrirtækjum í Danmörku rétt í viðtölum fyrir tveimur árum. Þá sagði miðillinn að starfsferill hennar hefði ekki haft nokkur áhrif á hlutverk hennar innan fjölmiðilsins.
Edda vakti fyrst athygli fyrir hlaðvarpið Eigin konur þar sem hún ræddi við konur sem lýsti upplifun sinni af kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Hún átti að hefja nýjan þátt hjá Heimildinni í síðasta mánuði.
Yfirlýsing Heimildarinnar um starfsferil Eddu kom í kjölfar þess að Frosti Logason, fjölmiðlamaður, sakaði hana um að hafa logið um starfsferil sinn í Danmörku. Fyrrverandi kærasta Frosta hafði komið fram í þætti Eddu. Þar lýsti hún meðal annars að hann hefði tekið nektarmyndir af henni og hótað að birta þær. Fyrst eftir viðtalið sagðist Frosti axla ábyrgð en nýlega tók hann fram að hann hefði aldrei gengist við öllum ásökunum konunnar.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Eddu til að greiða móður konu sem hún ræddi við í þættinum Eigin konum 400.000 krónur í miskabætur og 900.000 krónur í málskostnað fyrir brot gegn friðhelgi einkalífs móðurinnar í síðustu viku. Edda spilaði hljóðupptökur sem viðmælandinn tók upp af samtölum við móður sína í þættinum. Konan sakaði móður sína um andlegt ofbeldi.
Eva Hauksdóttir, lögmaður Frosta, skrifaði grein á Vísi í morgun þar sem hún sakaði Eddu um ritstuld í meistararitgerð sinni. Kallaði hún Eddu jafnframt „ofbeldisblaðamann“. Sakaði hún fyrrverandi kærustu Froseta um að „koma fram hefndum“ gegn honum í þætti Eddu vegna „tíu ára gamalla misgjörða“ hans.
Fréttin hefur verið uppfærð.