Fótbolti

Viðurkennir að United treysti of mikið á Rashford

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcus Rashford hefur verið sjóðandi heitur fyrir Manchester United undanfarna mánuði.
Marcus Rashford hefur verið sjóðandi heitur fyrir Manchester United undanfarna mánuði. David Rogers/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að liðið treysti of mikið á framlag frá sóknarmanninum Marcus Rashford.

Rashford skoraði eina mark leiksins er United vann mikilvægan 1-0 sigur gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sigurinn lyfti liðinu aftur upp í Meistaradeildarsæti, en Rashford hefur nú skorað 15 mörk fyrir United í ensku úrvalsdeildinni og 28 í öllum keppnum.

„Já það er satt,“ sagði hollenski þjálfarinn eftir leikinn, aðspurður að því hvort liðið trysti of mikið á mörk frá Rashford.

„En við vitum að við erum með fleiri leikmenn sem geta skorað. Bruno Fernandes getur líka skorað og við erum með marga leikmenn sem geta gefið okkur mörk.“

Manchester United mun að öllum líkindum skoða markaðinn í sumar og leita sér að framherja. Victor Osimhen, leikmaður Napoli, er sagður vera undir smásjánni hjá United, en hann er eini leikmaðurinn í bestu deildum Evrópu sem hefur skorað meira en Rashford eftir að HM í Katar lauk. Þá er félagið einnig sagt vera að fylgjast með stöðu mála hjá enska landsliðsfyrirliðanum Harry Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×