Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra skipaði þriggja manna starfshóp um nýtingu vindorku í júlí í fyrra og kynnti hópurinn áfangaskýrslu sína í morgun. Í skýrslunni er farið yfir fjölmörg álita- og úrlausnarefni sem leysa þurfi áður en pólitískt stefnumótun verði lögð en mikilvægt væri að slík stefnumótun lægi fyrir áður en farið verði í framkvæmdir við að virkja vindinn. Nú þegar eru þó tveir vindorkukostir innan nýtingar í rammaáætlun og í vinnslu hjá Landsvirkjun.
Guðlaugu Þór segir að í skýrslunni væri mjög mikið af upplýsingum um álitaefni ásamt fróðleik sem nauðsynlegt væri að hafa áður en umræðan verði tekin.

„Því við verðum að taka þessa umræðu. Þetta er ekki einkamál einhverra stjórnmálamanna. Þetta er mál allrar þjóðarinnar. Þannig að ef ég á að taka eitt saman um skýrsluna, þá erum við með upplýsingar og staðreyndir á einum stað. Sem auðvelt er að nálgast og mikilvægt að sem flestir geri það,“ segir umhverfisráðherra.
Í skýrslunni kemur fram að taka þurfi tillt til margra þátta við virkjun vindsins og uppsetningu vindorkuvera eins og nærsamfélagsins, náttúrunna og dýralífs og ýmissra hagsmuna eins og ferðaþjónustunnar. Þá þurfi að marka löggjöf um skattlagingu og hvernig tekjunum af henni verði skipt til að mynda milli ríkis og sveitarfélaga.
Guðlaugur Þór segir að nú verði farið í fundi um málið víðs vegar um land og starfshópurinn skili síðan af sér endanlegri skýrslu á þessu ári. Grunnurinn að góðri stefnumótun væri undirbúningsvinnan.
„Það er langur vegur frá að það sé ekki búið að vinna mikla vinnu. Auðvitað á eftir að taka ákvarðanir um hvað verður lagt fyrir þingið og það verður gert á næstu mánuðum eða sú vinna kláruð. En áður en þangað er farið viljum við eiga samtalið við þjóðina,“ segir Guðlaugur Þór. Hann reikni með að frumvarp eða frumvörp líti dagsins ljós á næsta þingvetri.
Starfshópinn skipuðu Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður sem er formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra og Kolbeinn Óttarsson Proppe fyrrverandi þingmaður. Hafsteinn S. Hafsteinsson er starfsmaður hópsins. Áfangaskýrsluna má finna á vef stjórnarráðsins.