Körfubolti

Einvígið um titilinn hefst í kvöld: „Allt gert til að reyna að vinna“

Sindri Sverrisson skrifar
Keflvíkingar urðu deildarmeistarar og ætla sér að ná Íslandsmeistaratitlinum einnig, eftir sex ára bið.
Keflvíkingar urðu deildarmeistarar og ætla sér að ná Íslandsmeistaratitlinum einnig, eftir sex ára bið. VÍSIR/VILHELM

„Við erum öll spennt fyrir þessu og tilbúin að byrja,“ segir Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari deildarmeistara Keflavíkur sem í kvöld hefja úrslitaeinvígi sitt gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna.

Búast má við hörkueinvígi á milli liðanna en það hefst í Blue-höllinni í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Vinna þarf þrjá leiki til að landa titlinum. Hörður segir ljóst að búast megi við miklum hitaleikjum.

„Þegar það er komið svona mikið undir þá er allt gert til að reyna að vinna. Allt lagt í sölurnar. Ég er mjög spenntur fyrir þessu og held að þetta verði mjög skemmtileg sería.“

Leikirnir í úrslitaeinvíginu

  • 19. apríl kl. 19.15: Keflavík - Valur
  • 22. apríl kl. 19.15: Valur - Keflavík
  • 25. apríl kl. 19.15: Keflavík - Valur
  • 28. apríl kl. 19.15 Valur - Keflavík (Ef þarf)
  • 1. maí kl. 19.15: Keflavík - Valur (Ef þarf)

Valskonur gerðu vel í að slá út Hauka en þurftu að hafa mikið fyrir því og réðust úrslitin í athyglisverðum oddaleik, sem endaði aðeins 56-46.

Keflavík komst hins vegar nokkuð þægilega í gegnum einvígi sitt við Njarðvík en tapaði þó einum leik naumlega.

Keflavík og Valur unnu tvo sigra hvort í innbyrðis leikjum liðanna í Subway-deildinni í vetur og þrátt fyrir að Valskonur hafi endað í 3. sæti deildarinnar þá voru þær aðeins fjórum stigum á eftir Keflvíkingum. 

Allt bendir því til spennandi einvígis sem annað hvort endar með þriðja Íslandsmeistaratitli Vals eða sautjánda Íslandsmeistaratitli Keflvíkinga sem eru sigursælasta lið sögunnar.

Leikur Keflavíkur og Vals hefst klukkan 19.15 í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Vegleg útsending hefst hálftíma fyrr.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×