Umfjöllun og viðtöl: Haukar – Fram 31-30 | Íslandsmeisturunum sópað úr leik

Hinrik Wöhler skrifar
Ósvikin gleði í leikslok.
Ósvikin gleði í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

Fyrsti handboltaleikur sumarsins var vægast sagt æsispennandi en Haukar sigruðu Fram, 31-30, í framlengdum leik. Þetta var annar leikur liðanna í 6-liða úrslitum Olís-deildar kvenna og sigruðu Haukar í báðum leikjunum. Úrslitin þýða að Haukakonur eru á leið í undanúrslit en Framkonur í sumarfrí.

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, gerði ýmsar áherslubreytingar eftir tapið á mánudag og leit Framliðið vel út í upphafi leiks. Framkonur byrjuðu leikinn mun betur, þær spiluðu hreyfanlega og framliggjandi vörn. Elín Klara Þorkelsdóttir, sem skoraði tólf mörk í síðustu viðureign, var í strangri gæslu og var gott sem tekin úr umferð í byrjun leiks. Haukakonur náðu ekki að opna vörn Framara á miðsvæðinu og var eina svar Hauka að opna vinstra hornið, sem gekk þó ágætlega í upphafi leiks. Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, leist alls ekki á byrjunina í leiknum og tók leikhlé eftir aðeins sjö mínútna leik þegar staðan er 5-2 fyrir Fram til að skerpa á leik liðsins.

Haukar komu beittari eftir þetta leikhlé og unnu sig aftur inn í leikinn um miðbik fyrri hálfleiks. Vörn Fram datt aftar og Haukakonur gengu á lagið. Framkonur voru gripnar í landhelgi en þær fengu á sig fimm víti í fyrri hálfleik og snéru Haukar leiknum við. Hálfleikstölur voru 16-13, Haukum í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Haukakonur juku forskot sitt þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir og komust í 25-21 þegar átta mínútur voru eftir á klukkunni. Stefán Arnarson, þjálfari Fram, grípur til þess ráðs að breyta í 3-3 vörn og eiga Haukakonur í mestu erfiðleikum að skora og byrja Framkonur að saxa á forskotið. Á lokasekúndum leiksins fiskar Tinna Valgerður Gísladóttir víti sem Perla Ruth Albertsdóttir skorar úr og jafnar leikinn, 28-28, og leikurinn fer í framlengingu.

Aðeins eitt mark var skorað í fyrri hálfleik framlengingar en markvörður Hauka, Margrét Einarsdóttir, varði allt sem á markið kom og Haukakonur leiddu með einu marki eftir 65 mínútur.

Bæði lið fengu fín tækifæri til að ganga frá leiknum en talsvert var um misheppnaðar sendingar og klaufagang í sóknarleik liðanna þegar pressan var sem mest. Framkonur jöfnuðu, 30-30, og Haukar fengu lokasókn leiksins. Elín Klara Þorkelsdóttir tók til síns ráðs og tók laglegt undirhandarskot utan af velli sem söng í netinu og leiktíminn rann út.

Sigurmarkinu fagnað.Vísir/Hulda Margrét

Haukakonur stigu mikinn fagnaðardans og liðið komið í undanúrslit, afar óvænt úrslit í einvígi þessara liða.

Afhverju unnu Haukar?

Þetta var leikur sem gat dottið báðum megin og allt virtist stefna í aðra framlengingu. Fram nýtti framlenginguna illa, kastaði boltanum klaufalega frá sér og kláruðu ekki færin.

Það má velta því fyrir sér hvort að það hafi verið vanmat í herbúðum Fram fyrir þetta einvígi. Þrír sannfærandi sigrar á móti Haukum í deildinni gæti haft eitthvað að segja.

Komin í sumarfrí.Vísir/Hulda Margrét

Hverjar voru bestar?

Gömul saga á ný, þá var Elín Klara Þorkelsdóttir markahæst hjá Haukum með 11 mörk úr 15 skotum. Þar af eru sex víti, sem hún eða Natasja Hammer, sem átti einnig prýðisleik, fiskuðu. Ragnheiður Sveinsdóttir stóð vörnina vel hjá Haukum, með 14 löglegar stöðvanir í leiknum.

Erna Guðlaug Gunnarsdóttir besti leikmaður gestanna, sjö mörk úr níu skotum og skapaði ótal færi fyrir liðsfélagana.

Hvað gekk illa?

Framkonur breyttu um vörn margsinnis í leiknum, byrjuðu framarlega í 5-1, síðan í 4-2 og enduðu leikinn í 3-3. Það má setja spurningarmerki við þessar mismunandi útfærslur af vörninni. Það mynduðust glufur í vörn Framara sem Haukarnir nýttu sér og meðal annars fiskuðu sjö víti í leiknum.

Hvað gerist næst?

Haukar eru á leið til Vestmannaeyja og mæta deildarmeisturum ÍBV í undanúrslitum. Fyrsti leikurinn í einvíginu verður leikinn um mánaðarmótin.

Það er ekki mikið á döfinni fyrir Framkonur, tímabilið á enda hjá þeim og talsvert fyrr en þær ætluðu sér.

Þórey Rósa: „Vorum ekki nægilega gíraðar í verkefnið“

Þórey Rósa Stefánsdóttir, hornamaður Fram, var afar niðurlút eftir leikinn í dag. Þetta var leikur sem gat dottið báðum megin en féll ekki með Framkonum og þær eru á leið í sumarfrí.

„Mér líður illa, við erum ótrúlega svekktar allar saman. Þetta fór engan veginn eins og við ætluðum okkur. Við ætluðum að koma að krafti inn í úrslitakeppnina og búin að undirbúa það í hátt í tvo mánuði. Þannig ótrúlega svekkjandi en bara til Haukanna, þvílíkur kraftur í þeim og þær unnu fyrir þessu.“

Það voru ýmsar áherslubreytingar í herbúðum Fram eftir tapleikinn á mánudag en breytingarnar náðu ekki að skila sigri í hús í dag.

„Við fórum yfir hlutina og ætluðum að gera þetta betur og gerðum það að mörgu leyti. Hrós á okkur fyrir að koma til baka úr erfiðri stöðu og ná framlengingu en sem fór sem fór.“

„Í dag og á mánudaginn fannst mér við bara ekki nægilega þéttar og með nægilega liðsheild. Það er ótrúlegt skrýtið að segja það þegar þú ert komin í úrslitakeppnina en við vorum ekki nægilega gíraðar í verkefnið,“ sagði Þórey.

Framkonur höfðu heljartak á Haukum í deildinni og fyrir einvígið mátti búast við að Íslandsmeistarar síðasta árs, Fram, myndu tryggja sér farseðilinn í undanúrslit.

„Við áttum góðan leik á móti þeim í vetur en það er hættulegt að koma í leiki þar sem þú heldur að þú sért með yfirhöndina, það var okkur kannski að falli, ég veit það ekki. Ég hrósa okkur fyrir að koma til baka en ég er gríðarlega svekkt með frammistöðuna,“ sagði Þórey eftir tapleikinn í dag.

Elín Klara: „Það mun taka smá tíma að ná sér niður eftir þetta“

Elín Klara var hetja Hauka í dag en hún skoraði sigurmarkið með laglegu undirhandarskoti utan af velli þegar örfáar sekúndur voru eftir.

„Mér líður ólýsanlega vel, það mun taka smá tíma að ná sér niður eftir þetta,“ sagði Elín skömmu eftir leikinn á Ásvöllum.

Elín Klara var í strangri gæslu í leiknum en Framkonur mættu henni mjög framarlega á vellinum.

„Við vorum alveg búnar að æfa þetta vel, við hefðum getað spilað betri sóknarleik á köflum. Við vorum vel undirbúnar og við vorum alveg að æfa þetta á æfingum. Við komum með ágætis svör við þessu.“

Næsta verkefni er ÍBV í undanúrslitum og er Elín bjartsýn á framhaldið.

„Það leggst frekar vel í mig, við höfum átt ágætis leiki á móti þeim í deildinni og við mætum bara gíraðar í þann leik og munum nýta vikuna vel.“

Þegar öll von virtist vera úti og flestir bjuggust við annarri framlengingu tók Elín gott skot utan af velli sem söng í netinu.

„Ég trúði þessu ekki, ólýsanleg tilfinning. Mig langar líka að hrósa stelpunum, þetta var liðssigur. Við börðumst og höfðum trú á þessu allan tímann og það skilaði sigri í dag,“ sagði Elín þegar hún var spurð út í lokasekúndur leiksins.

Sigri fagnað.Vísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira