Williamson fór meidd af velli í 1-0 tapi Arsenal fyrir Manchester United í ensku ofurdeildinni á miðvikudaginn. Nú er komið í ljós að hún er með slitið krossband í hné og verður frá næstu mánuðina.
We can confirm that Leah Williamson suffered a ruptured anterior cruciate ligament on Wednesday night.
— Arsenal Women (@ArsenalWFC) April 21, 2023
We're all right behind you, @leahcwilliamson
Þetta þýðir að Williamson missir af HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar. England er í riðli með Haítí, Kína og Danmörku.
Williamson var fyrirliði enska landsliðsins þegar það vann EM á heimavelli síðasta sumar. Hún var auk þess valin í lið mótsins. Williamson hefur leikið 41 landsleik og skorað fjögur mörk.
Arsenal þarf einnig að spjara sig án Williamson á lokasprettinum í ensku ofurdeildinni. Liðið er í 3. sæti hennar með 38 stig, sex stigum frá toppliði United. Arsenal á fimm deildarleiki eftir á tímabilinu. Liðið er einnig komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg.
Hin 26 ára Williamson hefur leikið með Arsenal allan sinn feril. Hún varð enskur meistari með liðinu 2019 og bikarmeistari 2014 og 2016.