Rapparinn Dide hefur vakið mikla athygli á Bretlandseyjum undanfarið. Hann kemur fram grímuklæddur í tónlistarmyndböndum og hvers kyns kynningarefni og hefur lag hans, sem nefnist Thrill, hlotið mikla hlustun.
Í umræddu lagi gefur rapparinn það oft til kynna að hann sé leikmaður í ensku úrvalsdeildinni og hefur það textabrot orðið til þess að margir samfélagsmiðlanotendur hafa farið í mikla rannsóknarvinnu.
Daily Mail gerir því nú skil í frétt á vef sínum að samfélagsmiðlanotendur telji sig vera búna að komast að því hver maðurinn á bak við grímuna sé.
Sá er knattspyrnumaður og ber hann nafnið Sheyi Ojo. Sá er fyrrum leikmaður liða á borð við Liverpool og Reading en húðflúr á hægri hendi hans er sagt hafa komið upp um hann.

Ojo er nú á mála hjá Cardiff City í ensku B-deildinni en enn sem komið er hefur það ekki fengist á hreint hvort hann sé í raun og veru rapparinn Dide.
Umræðan er það mikil, um það hver rapparinn Dide sé í raun og veru, að veðbankar hafa opnað fyrir veðmál á það. Þar eru Eddie Nketiah og Bukayo Saka, leikmenn Arsenal ofarlega á blaði auk fyrrum Arsenal leikmannsins Alex Iwobi.