Körfubolti

„Gengur ekki á móti svona góðu liði eins og Þór“

Siggeir Ævarsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals. Vísir/Bára Dröfn

„Þórsararnir tóku af skarið í byrjun, hittu vel og náðu yfirhöndinni og héldu henni út leikinn,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, eftir tap sinna manna gegn Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum Subway-deildar karla í körfubolta. Staðan í einvíginu er nú 2-0 Þór í vil.

„Þeir voru beittari en við, beittari i vörn og beitteir i sókn. Þegar þeir klikkuðu svo á skotunum þegar leið á leikinn þá fóru þeir að taka fráköst. Refsuðu okkur grimmilega og á sama tíma var sóknarleikurinn okkar stirður. Þegar við vorum komnir tíu stigum undir var of mikið óðagot á okkur og of mikið af mistökum.“

„Við lentum undir og ætluðum að bjarga hlutunum einn, tveir og þrír. Það gengur ekki á móti svona góðu liði eins og Þór,“ sagði Finnur Freyr um spilamennsku sinna manna í síðari hálfleik.

Kári Jónsson hefur oft átt betri leiki en þrátt fyrir að skora 10 stig þá var hann 0 af 9 í þriggja stiga skotum ásamt því að tapa boltanum 6 sinnum.

„Það var líka bara góð vörn hjá Þórsurunum og okkar að búa til betri skot fyrir hann. Komst nokkrum sinnum að hringinn og fékk góð „look“ en við þurfum að hjálpa honum að komast að fyrr í leiknum. Það er okkur öllum að kenna.“

„Þetta er sería upp í þrjú og það segir sig sjálft að ef þú ert 2-0 undir þá er þetta orðið erfitt en það er einn leikur í einu. Byrjum á að fara í Origo-höllina í næsta leik og vinnum hann. Svo sjáum við til hvað gerist svo,“ sagði Finnur Freyr að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×