Stúlkan sem er fyrsta barn þeirra Þóreyjar Erlu Erlingsdóttur og Alexanders Ottós Þrastarsonar var þrettán merkur þegar hún fæddist rétt fyrir átta á föstudagsmorgun. Að sögn foreldranna gekk fæðingin vel og hefur lífið eftir fæðinguna gengið „eins og í sögu“.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, heimsótti nýbökuðu foreldrana, færði þeim blómvönd, gjafir og óskaði þeim til hamingju með áfangann. Meðal gjafanna var samfella, Lýðheilsukort og silfurskjöldur áletraður með nafni barnsins, fæðingardegi og hamingjuóskum frá Akureyrarbæ.
Foreldrarnir sjálfir höfðu ekki gert sér grein fyrir áfanganum fyrr en þau fengu óvænt símtal frá bænum.
Í samtali við Akureyri.net sögðu þau það hafa verið „smá sjokk“ þegar þau fengu hringinguna og það hefði verið gaman að fá verðlaun þó stúlka væri „að sjálfsögðu bestu verðlaunin“.
