Frá þessu hefur lögreglan í Belgrad greint. Drengurinn skaut kennara sinn, samnemendur og öryggiverði í Vladislav Ribnikar grunnskólanum í morgun. Af þeim létust níu, átta nemendur og öryggisvörður. Kennari og sex börn voru flutt á sjúkrahús. Drengurinn var handtekinn á vettvangi.
Samkvæmt nýjum upplýsingum frá lögreglunni hafði drengurinn teiknað yfirborðsmynd af skólanum, hvar mætti finna inn- og útganga og hvert hann ætlaði að halda fyrst. Teikningin fannst í skrifborði drengsins. Þá er grunur um að hann hafi verið búinn að útbúa fjóra Molotov-kokteila. Menntamálaráðherra landsins hefur sagt að drengurinn hafi verið lagður í einelti af jafnöldrum sínum.
Af börnunum sem létust voru sjö stúlkur og einn drengur. Sá yngsti var fæddur árið 2009. Fjórir drengir og tvær stúlkur særðust þá í árásinni.
Ein stúlknanna er í lífshættu en hún hlaut alvarlegan höfuðáverka samkvæmt upplýsingum BBC. Þá liggur einn drengjanna þungt haldinn. Hann var skotinn í hálsinn og brjóstið og hlaut hann mænuáverka. Þá var hinn drengurinn skotinn í fótinn og ein stúlknanna skotin í magann og báða handleggi. Kennarinn var skotinn í magann og báða handleggi.
Hald hefur verið lagt á tvær skammbyssur sem drengurinn beitti í árásinni og talið að hann hafi tekið skotvopnin af heimili föður síns. Faðirinn hefur einnig verið handtekinn.
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Serbíu, frá 5. til 7. maí.