Brynjúlfur Brynjólfsson starfsmaður Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands segir í samtali við Morgunblaðið að á því svæði sem þeir fylgist með megi greinilega sjá fækkun. Sérstaklega er mikil fækkun á heiðagæs að mati Brynjúlfs sem segir að aðeins helmingur hafi skilað sér í vor, miðað við undanfarin ár.
Þá hafi bændur á stórum jörðum furðað sig á því hversu fáar gæsir hafi komið og telur Brynjúlfur að stofninn gæti verið allt að einn þriðji af því sem hann er venjulega án þess að hann geti fullyrt um aðra landshluta. Einnig er mun minna um álft nú miðað við venjulega.
Ennfremur segir Brynjúlfur að fuglaflensan sem nú geisar hafi leikið aðrar tegundir grátt, sérstaklega helsingjann og skúminn.