Þetta kom fram í svari Svandísar við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Hann vísaði þar í nýja skýrslu MAST um hvalveiðar, þar sem fram kemur að fjórðungur þeirra 148 hvala sem veiddir voru við Ísland í fyrra hafi þjáðst í duaðastríðinu.
„Fjórðungur hvalanna þurfti að þola pyntingar í dauðastríðinu. Með hliðsjón af varúðarreglunni er bara hægt að draga einn lærdóm af þessari niðurstöðu. Þess vegna ætla ég að spyrja ráðherra: Ætlar ráðherrann nokkuð að leyfa hvalveiðar í sumar?“ spurði Andrés Ingi Svandísi.
Svandís sagði í svari sínu niðurstöður Matvælastofnunar sláandi.
„Að veiðarnar séu ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra. Frakvæmd laganna er í höndum Matvælastofnunar og stofnunin hefur í samræmi við lög um velferð dýra leitað álits fagráðs um velferð dýra um hvort veiðarnar geti yfir höfuð uppfyllt markmið laganna,“ sagði hún.
Hún benti á að veiðileyfi, sem gefið hefur verið út til handa Hvali hf. gildi út þetta ár.
„Það er vandkvæðum háð að afturkalla leyfi sem nú þegar eru í gildi en það vakna sannarlega ýmsar spurningar um það hvort þær aðferðir sem beitt er við þessar veiðar og samræmast lögum um dýravelferð geri það ekki að verkum að við stöndum frammi fyrir því að endurskoða hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð.“