Fótbolti

Segir United geta lokkað marga gæðaleikmenn til sín í sumar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag er bjartsýnn á að geta lokkað gæðaleikmenn til Manchester United í sumar.
Erik ten Hag er bjartsýnn á að geta lokkað gæðaleikmenn til Manchester United í sumar. EPA-EFE/Peter Powell

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að liðið geti lokkað til sín gæðaleikmenn í sumar þrátt fyrir að enn ríki óvissa um hverjir eigendur félagsins verði.

Sjeik Jassim bin Hamad Al Thani, stjórnarformaður eins stærsta banka Katar, og breski auðjöfurinn Sir Jim Ratcliffe hafa lagt fram tilboð í Manchester United, en núverandi eigendur félagsins, Glazer-fjölskyldan, hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvað verður um þetta fornfræga félag.

Þrátt fyrir það er hollenski knattspyrnustjórinn handviss um að margir gæðaleikmenn séu tilbúnir að koma til félagsins þegar félagsskiptaglugginn opnar í sumar, en að það hafi verið erfitt að sannfæra þá um að koma þegar hann tók við stjórnartaumunum eftir síðasta tímabil.

„Ég sé mikinn mun frá því í fyrra. Nú sjá margir leikmenn verkefnið sem er í gangi hérna. Þeir sjá hvað er í gangi og þann metnað sem lagður er í verkefnið,“ sagði Ten Hag.

Þrátt fyrir að þjálfarinn segi að erfiðlega hafi gengið að sannfæra leikmenn um að ganga í raðir United síðasta sumar fékk félagið þó Casemiro, Christian Eriksen, Antony, Lisandro Martinez og Tyrell Malacia.

„Leikmenn voru mjög tvístígandi áður en þeir komu í fyrra og margir þeirra höfðu miklar efasemdir. Í ár eru hins vegar margir gæðaleikmenn mjög áhugasamir um að koma til okkar,„ bætti Hollendingurinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×