Fótbolti

Furðar sig á því að Eurovision setji leikjadagsrána úr skorðum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola er ekki hrifinn af því að þurfa að spila gegn Everton á morgun.
Pep Guardiola er ekki hrifinn af því að þurfa að spila gegn Everton á morgun. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, furðar sig á því að leik liðsins gegn Everton hafi verið frestað um einn dag sökum þess að Eurovision fer fram í Liverpool í kvöld.

City átti að mæta Everton á Goodison Park í Liverpool í dag, en sökum þess að söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram þar í borg í kvöld verður leikurinn spilaður á morgun. Englandsmeistararnir mæta svo Real Madrid í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudagskvöld og því hefur liðið lítinn tíma til að undirbúa sig fyrir þann leik eftir leik morgundagsins.

Real Madrid leikur hins vegar gegn Getafe í spænsku úrvalsdeildinni í dag og Evrópumeistararnir fá því auka dag í hvíld á milli leikja.

„Svona er þetta bara,“ sagði Pep um málið.

„Við getum ekki spilað á laugardaginn af því að Eurovision eða eitthvað svoleiðis fer fram í Liverpool sama kvöld og stundum er bara ekki nægur mannskapur til að ráða við tvo stóra viðburði sama daginn.“

„Ég skil þetta ekki, en ég ætla ekki að berjast gegn þessu lengur. Við verðum bara að aðlagast þessu. Hvað annað getum við gert? Ég hefði frekar viljað spila á laugardaginn til að hafa meiri tíma til að undirbúa okkur fyrir miðvikudaginn, en svona er þetta bara.“

„Ég er nokkuð viss um að deildin vill reyna að koma til móts við liðin. Ég efast um að hún sé að reyna að gera þetta óþægilegt fyrir okkur,“ sagði Spánverjinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×