Um er að ræða alþjóðlega tjónaskrá Evrópuráðsins þar sem gögnum verður safnað saman yfir það tjón sem Rússar hafa valdið í Úkraínu með innrás sinni svo hægt verði að fá það bætt síðar meir. Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í Hörpu á morgun.
Segir í tilkynningu Bandaríkjanna að þau hafi lýst yfir áhuga á að vera stofnaðili að tjónaskránni. Linda Thomas Greenfield, sendiherra landsins hjá Sameinuðu þjóðunum, muni verða áheyrnarfulltrúi landsins á fundinum í Hörpu og lýsa þar vilja Bandaríkjanna í málinu.
„Eins og Biden forseti hefur lýst yfir eru Bandaríkin staðföst í að draga Rússland til ábyrgðar fyrir innrásarstríð þess í Úkraínu,“ er haft eftir Lindu í yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda.
Segir hún að skref sem stígin verði í átt að því að stofna slíka tjónaskrá séu krítísk til þess að tryggja megi að Rússland verði dregið til ábyrgðar. Bandaríkin standi auk Evrópuráðsins með Úkraínu.