Ummælin lét Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings falla í samtali við Fótbolta.net eftir að Heimir Guðjónsson þjálfari FH gagnrýndi lið hans í samtali við Stöð 2 Sport fyrir að vera grófasta lið deildarinnar. Sagðist Arnar taka því sem hrósi. „Af því við vorum algjörar píkur í fyrra.“
Arnar hefur nú beðist afsökunar, það gerir hann í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook.
„Biðst innilegrar afsökunar á ekkert eðlilega hallærislegum ummælum sem höfð voru eftir mér í gær. Árið er 2023 og ég er að nota frasa sem er bæði móðgandi og viðheldur úreltri og rangri staðalímynd. Arnar Bergmann Gunnlaugsson – gera betur,“ skrifar Arnar í færslu á Facebook.
Ummæli Arnars vöktu gríðarlega athygli á samfélagsmiðlum. Er Arnar gagnrýndur fyrir líkinguna af ótal mörgum sem segja þau ekki eiga sérlega vel við.
Þakkaði Heimi fyrir hrósið
Eftir sigur Víkinga á FH í Bestu deild karla á dögunum sagði Arnar, í viðtali við Vísi, að FH-ingar hefðu komið út í síðari hálfleik með það sem markmið að meiða leikmenn Víkings en Hafnfirðingarnir voru þá tveimur mörkum undir.
Heimir svaraði þessum ummælum Arnars í viðtali við Vísi í kjölfarið. Hann sagði Arnar tala oft mikið og að lið hans væri grófasta lið Bestu deildarinnar.
Arnar var spurður út í ummæli Heimis í viðtali við Fótbolti.net í gær og þar sagðist hann taka ummælum Heimis sem hrósi í garð sinna manna.
„Af því við vorum algjörar píkur í fyrra,“ sagði Arnar í viðtali við Fótbolti.net.