Allt bendir til þess að Snorri Steinn verði næsti landsliðsþjálfari Íslands þó það gangi fremur illa að setja blek á blað. Fari svo að Handknattleikssamband Íslands telji íslenska landsliðinu betur borgið með annan mann í brúnni þá hefur danska stórliðið GOG einnig áhuga á að ráða Snorra Stein.
Það eru því litlar sem engar líkur á að hann verði áfram á Hlíðarenda þó svo að Snorri Steinn hafi ekki gefið neitt út enn. Valsarar virðast ekki ætla að fara út fyrir Hlíðarenda í leit að næsta þjálfara en samkvæmt Arnari Daða, stjórnanda Handkastsins, þá verður Óskar Bjarni Óskarsson næsti þjálfari liðsins.
Óskar Bjarni hefur verið aðstoðarmaður Snorra Steins undanfarin ár en hann verður seint sagður nýgræðingur í faginu. Hann var til að mynda aðalþjálfari Vals með Guðlaugi Arnarssyni áður en Snorri Steinn tók við.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Sérfræðingsins verður Herra Valur, Óskar Bjarni Óskarsson næsti þjálfari Vals. Óskar Bjarni hefur verið aðstoðarmaður Snorra Steins undanfarin ár.
— Arnar Daði (@arnardadi) May 17, 2023
Þetta og meira til í næsta Handkastinu:https://t.co/Cxcl0GtgCn #Handkastið pic.twitter.com/agjjDh9eHd
Ásamt því að hafa þjálfað nærri alla árganga sem hafa komið upp á Hlíðarenda þá er Óskar Bjarni faðir þeirra Benedikts Gunnars og Arnórs Snæs en báðir hafa leikið stórt hlutverk í liði Vals undanfarin misseri. Á ferli sínum hefur Óskar Bjarni einnig verið aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins sem og hann aðstoðaði Dag Sigurðsson með japanska landsliðið á sínum tíma.
Valur er enn ríkjandi Íslandsmeistari en féll úr leik gegn Haukum í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í ár. Haukar eru komnir í úrslit þar sem þeir mæta ÍBV.