Samkvæmt lögreglunni á Austurlandi slasaðist enginn af ferðamönnunum þremur sem voru um borð í bílnum sem fauk. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir í samtali við fréttastofu að það hafi komið hviða á bílinn með þeim afleiðingum að ferðamennirnir, fóru út af og misstu stjórn á bílnum.
Þá hefur lögreglunni einnig borist tilkynningar um lausamuni að fjúka og þakplötur að losna. Appelsínugul viðvörun hefur verið í gildi á Austfjörðum frá því í morgun.
„Það hefur gengið á með býsna öflugum hviðum, ekki beinlínis sumarlegt í morgun út af vindinum,“ segir Kristján sem bendir þó á að veðrið sé byrjað að skána. „Mér finnst eins og þetta sé að ganga niður og það er í samræmi við spána. Vonandi er þetta bara lokahnykkurinn á vetrinum.“