Fótbolti

Búið að selja næstum því milljón miða á HM hjá stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roselord Borgella fagnar árangri Haíti sem komst á HM í fyrsta sinn.
Roselord Borgella fagnar árangri Haíti sem komst á HM í fyrsta sinn. Getty/Luis Veniegra

Miðasala gengur vel á leikina á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta sem fer fram í sumar í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Það eru fimmtíu dagar í keppnina og nú er búið að selja meira en 930 þúsund miða á leikina. Þar af hafa 230 þúsund þeirra selst á leikina sem verða spilaðir á Nýja-Sjálandi.

„Árið 2023 verður tímamót fyrir kvennafótboltann,“ sagði Fatma Samoura, framkvæmdastjóri Alþjóða knattspyrnusambandsins.

32 þjóðir keppa á HM en mótið hefst 20. júlí og lýkur með úrslitaleik 20. ágúst.

Talsmaður FIFA sagði blaðamanni breska ríkisútvarpsins að sambandið búist við því að milljónasti miðinn seljist á næstu vikum.

Þetta er níunda heimsmeistarakeppni kvenna í fótbolta og mótshaldarar ætluðu sér að selja eina og hálfa milljón miða.

Það er síðan búist við því að yfir tveir milljarðar fylgist með keppninni í sjónvarpi en þá þurfa auðvitað stóru markaðirnir að ná samkomulagi um FIFA um söluna á sjónvarpsréttinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×