Tindastóll varð á dögunum Íslandsmeistari undir stjórn Pavels, á hans fyrsta ári í þjálfun, eftir frækinn 3-2 sigur á Valsmönnum í úrslitaeinvígi Subway-deildar karla. Var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill Tindastóls.
Í tilkynningu félagsins segir að nýi samningurinn hafi verið af frumkvæði Pavels en ásamt því að stýra meistaraflokki karla mun Pavel einnig aðstoða við unglingastarf félagsins í bæði karla og kvennaflokki.
„Síðustu mánuðir hafa auðvitað verið mikið ævintýri. Ég stökk á þetta tækifæri vegna þess að ég vissi í fyrsta lagi um þessa sterku umgjörð Tindastóls í körfuboltanum og líka vegna þess að mig langaði að spreyta mig á því verkefni að vera þjálfari og leiðtogi utan vallar. Þetta var ákveðin prufukeyrsla fyrir mig,“ sagði Pavel við undirritun í kvöld áður en hann bætti við.
„Ég vildi vita hvort verkefni og ábyrgð þjálfarans hentuðu mér og það kom mér svo sem ekkert á óvart hvað ég nýt mín í þessu hlutverki. Og það kom mér heldur ekki á óvart hve vel var tekið á móti mér og allri fjölskyldunni. Sauðárkrókur er stórkostlegur staður að vera á og við hlökkum til þess að fá að kynnast íbúunum og bæjarlífinu enn betur á næstu árum.“
Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, bætti við að samstarf körfuknattleiksdeildar Tindastóls og Pavels hefur verið til fyrirmyndar í allan vetur og segir að Pavel sé mikill fengur inn í allt körfuboltastarf félagsins.
Tilkynningu félagsins má sjá í heild hér að neðan.