Innlent

Árni John­sen er látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árni Johnsen stjórnaði brekkusöngnum á Þjóðhátíð í fjölda ára.
Árni Johnsen stjórnaði brekkusöngnum á Þjóðhátíð í fjölda ára. Mynd/Gunnar

Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, lést í gær á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Hann var 79 ára.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Árni fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944. Foreldrar hans voru Poul C. Kanélas frá Detroit í Bandaríkjunum og Ingibjörg Á. Johnsen kaupakona. Hún átti síðar Bjarnhéðin Elíasson skipstjóra og útgerðarmann í Vestmannaeyjum, að því er segir á vef Alþingis.

Árni var kennari í Vestmannaeyjum 1964-1965 og í Reykjavík 1966-1967. Hann starfaði hjá Surtseyjarfélaginu með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967 og var blaðamaður á Morgunblaðinu 1967-1991. Þá var hann dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið og við Sjónvarpið frá stofnun þess.

Árni var Sjálfstæðismaður og þingmaður Suðurlands 1983–1987 og aftur 1991–2001. Hlé varð á þingmennsku Árna árið 2001 eftir að upplýst var að hann hefði nýtt fjármuni bygginganefndar Þjóðleikhússins í eigin þágu. Hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann var aftur kjörinn á þing árið 2007 og sat á þingi til 2013.

Árni skráði viðtalsbækur og bækur um gamanmál þingmanna, samdi sönglög og stjórnaði brekkusöngnum á Þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum um árabil. Þá var hann mikill talsmaður ganga frá meginlandinu og til Vestmannaeyja.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Halldóra Filippusdóttir. Þau áttu soninn Breka en fyrir átti Árni tvær dætur með fyrrverandi eiginkonu sinni, Margréti Oddsdóttur. Þær heita Helga Brá og Þórunn Dögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×