Kaczynski fannst meðvitundarlaus í klefa sínum um klukkan hálf eitt aðfararnótt laugardags að staðartíma í Norður-Karólínu. Hann var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi síðar sama dag.
Heimildir AP-fréttastofunnar herma að Kaczynski hafi framið sjálfsvíg. Hann var fluttur á sjúkradeildina í Norður-Karólínu þar sem alvarlega veikir fangar eru vistaðir árið 2021. Fyrir það hafði hann verið geymdur í hámarksöryggisfangelsi í Koloradó frá því að hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1998. Þar reyndi hann að hengja sig með nærbuxunum sínum sama ár.
Bandarísk alríkisfangelsismálayfirvöld hafa sætt gagnrýndi undanfarin ár eftir að Jeffrey Epstein svipti sig lífi í alríkisfangelsi í New York árið 2019. Hann var ákærður fyrir mansal.
Hélt háskólum í heljargreipum
Kaczynski myrti þrjá og særði 23 aðra í sprengjuherferð sem stóð yfir í sautján ár. Hann hélt háskólum vít og breytt um Bandaríkin í heljargreipum með sprengjum sem hann sendi þangað. Fyrir dómi játaði hann á sig sextán sprengjuárásir á árunum 1978 til 1995.
Auk háskólanna sendi Kaczynski sprengjur á flugfélög, eiganda tölvuleigu, auglýsingastofustjórnanda og málafylgjumanns timburiðnaðarins. Sum fórnarlamba Kaczynski voru örkumluð fyrir lífstíð, þar á meðal tveir fræðimenn við Yale-háskóla sem opnuðu bréfsprengjur með aðeins tveggja daga millibili árið 1993.
Alríkislögreglan FBI nefndi Kaczynski „Unabomber“ því framan af beindi hann sjónum sínum aðallega að háskólum og flugfélögum.
Yfirvöld komust á spor Kaczynski eftir að honum tókst að ógna dagblöðum til þess að birta 35.000 orða stefnuyfirlýsingu árið 1995. Í henni fordæmdi morðinginn nútímalíf, tækni og umhverfistjón. Bróðir hans og mágkona könnuðust við skrifin og höfðu samband við FBI.
Kaczynski var handtekinn í hrörlegum fjallakofa nærri Lincoln í Montana í apríl árið 1996.