Í fréttum Stöðvar 2 var sent beint út frá nýslegnu og nýhirtu túni á bænum Þorvaldseyri og rætt við Ólafs Eggertsson bónda.
„Það er í góðu lagi,“ svaraði hann athugasemd um að þeir hefðu verið nokkrum dögum á eftir bændum í Eyjafirði að hefja heyskap.
„Við ákveðum að hefja slátt þegar grösin eru fulltilbúin. Og það er einmitt núna um þetta leyti sem þau eru bara í hæstu gæðum,“ segir Ólafur.

Bændur á Þorvaldseyri hafa oft byrjað fyrr.
„En vorið núna búið að vera kalt og rigningarsamt og það hefur náttúrlega tafið fyrir sprettu. En nú er jörðin með nægan raka og grasið bara þýtur upp núna þegar sólin kemur og hlýnar. Þá er þetta bara að vaða upp.
Og við þurfum að vera svolítið snöggir að taka þetta þegar best gefur.“
Hann segir að gæði fóðursins eigi núna að vera í toppi og næstu dagar skipti sköpum.
„Og það fellur mjög fljótt ef grasið fer að spretta úr sér. Þessvegna erum við bara mjög heppin að fá núna þurrk og sól og geta bara tekið núna í nokkra daga bara megnið af heyskapnum.“

Fyrri hluta dags heyjuðu þeir í rúllur, voru að rúllubinda, en síðdegis hirtu þeir nýslegið grasið beint af túnunum og settu í votheysturna. Ólafur segir að sú aðferð sé aldeilis ekki úrelt á Þorvaldseyri.
„Þessi aðferð er búin að vera hérna í yfir fimmtíu ár. Við notum þetta sem fyrsta heyskap.
Þetta eru bestu gæðin, besta geymslan, sparar plast. Hver turn tekur svona um þrjúhundruð rúllur, ef það væri.
Þetta er mikill sparnaður á plasti og við erum með heyið komið inn í turn þegar búið er að hirða. Það fer svo sjálfvirkt inn á fóðurgang í vetur þegar við förum að gefa,“ segir Ólafur Eggertsson.
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá Þorvaldseyri: