Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan:
Syngur um sína sögu
Lagið Ástarbál er unnið í samvinnu við tónlistarmanninn Thorstein Einarsson, Halldór Á. Björnsson pródúsent og textasmiðinn Friðrik Sturluson, Sálarmann. Herbert segir þetta vera þríeykið sem honum finnst gott að vinna með en þeir sömdu einnig með honum lagið Með Stjörnunum sem kom út fyrir tæpum tveimur árum.
„Ég er að syngja söguna mína í þessu lagi,“ segir Herbert um nýja lagið, Ástarbál, og bætir við: „Að fá vindinn í fangið og ýmsa erfiðleika en samt stendur maður upp sem sigurvegari.“
Toppaði ferilinn um daginn
Herbert ræddi við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni í morgun þar sem hann fór meðal annars yfir feril sinn.
„Ég svona eiginlega toppaði ferilinn minn um daginn. Þá var ég að syngja í Skarðshlíðarskóla í Hafnarfirði. Þetta voru áttundi, níundi og tíundi bekkur sem pöntuðu mig og barnabarnið mitt var þarna. Og þau kunnu lögin mín.“
Herbert sló í gegn á níunda áratug síðustu aldar með sögulega smellinum Can't Walk Away. Hann segir ómetanlegt að geta unnið í tónlistinni og enn náð til fólks með henni en undanfarið hefur hann verið að koma fram á ýmsum viðburðum.
„Ég er svo þakklátur. Þetta er ekki eitthvað sem maður bara hristir fram úr erminni. Það segir mér að það sé eitthvað vit í því sem ég er að gera.“
Hér má hlusta á viðtalið við Herbert Guðmundsson:
Lagið er hljóðblandað í Austurríki af Lukas Hillebrand og masterað af Martin Scheer. Leikstjóri og framleiðandi myndbandsins er Þór Freysson. Myndataka var í höndum Sigurðar Más Davíðssonar, klipping eftir Guðna Halldórsson og eftirvinnslan eftir Kristján U. Kristjánsson.