Samkvæmt samgönguáætlun 2024 til 2038 sem lögð verður fyrir Alþingi í haust er fyrirhugað að setja 909 milljarða króna til uppbyggingar samgöngukerfisins. Stefnt er að stóraukinni uppbyggingu innanlandsflugvalla og þá sérstaklega varaflugvalla fyrir alþjóðaflugið á Egilsstöðum og Akureyri.
Áttatíu kílómetrar af stofnvegum fá aðskildar akstursstefnur og bundið slitlag lagt á 619 kílómetra af tengivegum. Engar einbreiðar brýr verði á þjóðvegum landsins en þær eru 29 í dag auk þess sem þær munu einnig hverfa á 50 öðrum vegum.
Sigurður Ingi Jóhannson innviðaráðherra segir miklu skipta að lög um varaflugvallagjald voru samþykkt á Alþingi á vorþingi.

„Þá erum við búin að koma uppbyggingunni og fjármögnun flugvallanna í gott horf,“ segir innviðaráðherra.
Lokið verði við lagningu flughlaðs og akbrautar á Egilsstaðaflugvelli, stækkun flugstöðvar á Akureyri og ráðist í byggingu nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli, samkvæmt samkomulagi við borgina og Icelandair sem á núverandi flugstöð.
Hvenær gæti það gerst að ráðist verði í framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli?
„Við getum gert það fyrr en seinna. Með þessu nýja varaflugvallargjaldi eru um 1,2 milljarðar að koma í hús strax á næsta ári og fara síðan vaxandi,“ segir Sigurður Ingi. Á næstu 10 til 13 árum ætti að takast að byggja upp mjög góða varaflugvelli.
„Með góðri aðstöðu. Þar sem á Egilsstöðum verði möguleiki að taka allt að 20 flugvélar niður og talsverðan fjölda á Akureyri. Og Reykjavíkurflugvöllur stendur vel fyrir sínu líka,“ segir Sigurður Ingi.

Samhliða samgönguáætlun er einnig lögð fram jarðgangaáætlun til 30 ára. Þar eru Fjarðarheiðagöng, Siglufjarðargöng og Hvalfjarðargöng 2 efst á lista tíu ganga í forgangsröð auk þess sem fjórir aðrir gangakostir eru til nánari skoðunar. Innviðaráðherra segir reiknað með gjadtöku í öllum göngum samhliða væntanlegum breytingum á gjöldum á umferðina.
Ríkið muni leggja 12 til 15 milljarða til jarðgangagerðar á ári í samvinnu við einkaaðila í stað um fjögurra nú. Sérstakt jarðgangafélag gæti verið með tvenn til þrenn göng í framkvæmd á hverju ári.
„Við myndum síðan greiða þessa framkvæmd til baka, Íslendingar og okkar gestir, notendur; eigum við að segja allt að fimmtíu árum eftir að framkvæmdum lýkur.“

Sundabraut er eitt af stóru verkefnunum í samgönguáætlun. Hún er nú í umhverfismati þar sem meðal annars er lagt mat á hvort farin verði brúarleið yfir í Gufunesið eða gangaleið. Innviðaráðherra segir mikilvægt að umhverfismatið liggi fyrir í haust.
„Vegna þess að útboðsferli í svona stóru verki tekur allt að tvö ár og við miðum við að framkvæmdir geti hafist 2026 og standi í fimm ár. Þannig að það verður ekki fyrr en '31 sem við keyrum yfir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sem enn hugnast brú yfir sundið.