Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. RÚV greindi fyrst frá kröfu lögreglustjórans. Búist er við því að héraðsdómari staðfesti úrskurð í dag en gæsluvarðhaldsúrskurður frá 2. júní rennur út í dag.
Rannsóknin miðar vel að sögn Sveins Kristjáns.
„Staðan er góð en þetta er tímafrekt þar sem verið er að sækja mikið af gögnum,“ segir hann.
Hann segir nú beðið eftir lokaskýrslu úr krufningu. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að 29 ára gamalli konu hafi verið ráðinn bani.
Héraðssaksóknara og fjölskyldu haldið upplýstri
„Hann hefur enn stöðu sakbornings,“ segir Sveinn Kristján spurður um hinn manninn sem handtekinn var við upphaf rannsóknar. Sá sem er enn í haldi hefur meiri aðkomu að málinu en Sveinn Kristján vildi ekki tjá sig nánar um hlut hvors fyrir sig.
„Mínum skjólstæðing hefur verið sleppt úr varðhaldi. Það að honum hafi verið sleppt bendir til þess að lögreglan telji að hann sé ekki viðriðinn þetta,“ sagði Torfi Ragnar Sigurðsson, lögmaður mannsins þegar honum var sleppt var í maí. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.
„Héraðssaksóknari fer með ákæruvald og það er nauðsylegt að halda honum upplýstum um gang mála,“ segir Sveinn Kristján um fundi með héraðssaksóknara um málið. Fjölskyldu hinnar látnu er einnig haldið upplýstri eins og kostur er.