Málið má rekja til ársins 2021 en þá var lögreglu tilkynnt um andlát á geðdeild. Stuttu síðar var hjúkrunarfræðingur, Steina Árnadóttir, handtekin á heimili sínu og síðar ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi og fyrir að hafa brotið gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Í dag var hún sýknuð af báðum ákærum og kemur fram í niðurstöðu dóms að dómurinn telji „ósannað að ákærða hafi á verknaðarstundu haft ásetning um að svipta brotaþola lífi“ og því beri að sýkna.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður hjúkrunarfræðingsins, segir dóminn skýran og fagnaði niðurstöðunni við dómsuppsögu í dag.
„Dómurinn er algerlega afdráttarlaus með það, eins og ég tel reyndar að hafi legið fyrir frá upphafi. Að ásetningur umbjóðanda míns stóð til þess að bjarga umræddum sjúklingi en ekki að fyrirkoma honum,“ segir Vilhjálmur og að þess vegna hafi umbjóðandi hans verið sýknaður.
Ríkissaksóknari hefur fjórar vikur til að ákveða hvort að hann áfrýi. Vilhjálmur segir að nú verði bara að bíða og sjá hvað ríkissaksóknari geri en að hann telji að reitt hafi verið ansi hátt til höggs með því að ákæra fyrir manndráp með ásetningi.
Vel rökstudd niðurstaða
„Ákærunni verður ekki breytt úr þessu. Þannig ég ætla að vonast til þess að ákæruvaldinu beri gæfa til þess að una þessari niðurstöðu enda er þetta mjög vel rökstutt, þessi hlutur dómsins,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að málið hafi valdið sínum skjólstæðingi óbætanlegu tjóni og að niðurstaðan komi ekki á óvart. Framburður skjólstæðings hans hafi verið á einn veg og verið trúverðugur.
„Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt og mikilvægt að Landspítalinn dragi lærdóm af þessu máli og taki ærlega til í sínum ranni.“
Ekkert til að vernda fólk
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði að lokinni dómsuppsögu í dag að engin önnur niðurstaða hefði átt að koma til greina og fagnaði henni. Hún kallaði þó á viðbrögð yfirvalda.
„Hér er ekkert sem er að vernda fólkið í vinnunni að hér séu of fáir á vakt, fólk beðið um að hlaupa margfalt umfram vinnuskyldu og ekki eru stofnanirnar dregnar til ábyrgðar. Þannig nú er þetta algerlega komið í hendurnar á ríkisstjórninni og heilbrigðisstofnunum að hysja upp um sig í máli ef þau ætla að halda fólki í vinnu,“ sagði Guðbjörg en hægt er að lesa viðtal við hana hér að neðan.