Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum var sýknaður af ákæru um að hafa valdið dauða sjúklings á geðdeild spítalans fyrir tveimur árum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Konan var sýknuð af öllum kröfum héraðssaksóknara og einkaréttarkröfu aðstandanda þess sem lést var vísað frá dómi.
Guðbjörg vonast til þess að yfirvöld láti hér staðar numið í þessu máli. Hún kallar þó eftir viðbrögðum þeirra og að refsiramminn sé skýrari og aðstæður heilbrigðisstarfsfólks bættar.
„Ég fagna þessu mjög,“ segir hún og að niðurstaðan sé mikilvæg fyrir hina ákærðu, Steinu Árnadóttur, en einnig fyrir heilbrigðisstarfsfólk allt.
Hún segir félagið hafa ítrekað kallað eftir skýrari refsiramma og að þetta mál sé gott dæmi um mál sem hafi valdið óbætanlegum skaða. Hún harmar að farið hafi verið í „manninn en ekki boltann“ í þessu máli og vonar að einhver lærdómur verði dreginn af þessu máli.
„Þetta gengur ekki. Þetta er ekki leiðin til að halda heilbrigðisstarfsfólki í vinnu,“ segir Guðbjörg sem segir að ef niðurstaða dómsins hefði verið önnur hafi hún átt von á brotfalli úr stétt hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks.
„Hér er ekkert sem er að vernda fólkið í vinnunni að hér séu of fáir á vakt, fólk beðið um að hlaupa margfalt umfram vinnuskyldu og ekki eru stofnanirnar dregnar til ábyrgðar. Þannig nú er þetta algerlega komið í hendurnar á ríkisstjórninni og heilbrigðisstofnunum að hysja upp um sig í máli ef þau ætla að halda fólki í vinnu.

Steina Árnadóttir, 62 ára gamall hjúkrunarfræðingur, var ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi og brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Hún neitaði sök og var ekki viðstödd dómsuppkvaðninguna í morgun.
Henni var gefið að sök að svipta konu á sextugsaldri með geðklofa, sem var sjúklingur á geðdeild 33A á Landspítalanum við Hringbraut, lífi með því að þröngva ofan í hana tveimur flöskum af næringardrykk 16. ágúst árið 2021. Steina hafi hellt drykknum upp í munn konunnar á meðan hún lét samstarfskonur halda henni þrátt fyrir að konan hefði gefið til kynna að hún vildi ekki drykkinn. Drykkurinn hafi hafnað í loftvegi konunnar sem olli því að hún kafnaði.
Dómurinn var fjölskipaður. Auk tveggja héraðsdómara var sérfræðingur í bráðalækningum meðdómandi í málinu. Dómsorðið hefur ekki verið birt enn. Steina var ekki viðstödd dómsuppkvaðninguna sjálf.