Í kæru sem Navalní lagði fram færði hann rök fyrir því að fangelsisyfirvöld hefðu ekki rétt á að banna honum að fá blað og penna sem fangar fá almennt í Melekhovo-fangelsinu þar sem honum er haldið eingöngu vegna þess að honum er haldið í einangrunarklefa með engu borði eða vegna þess að hann eigi ekki að hafa tíma fyrir skriftir, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Ég bið ekki um meiri mat, ég bið ekki um jólatré í klefann minn. Við erum að tala um grundvallarmannréttindi að hafa penna og blað í klefanum til þess að skrifa bréf eða kvörtun til dómstólsins,“ sagði Navalní við meðferð málsins.
Fangelsisdómurinn sem Navalní afplánar er vegna fjársvika og fleiri brota sem hann segir rússnesk stjórnvöld hafi soðið saman til þess að þagga niður í honum. Réttarhöld í nýju máli stjórnvalda gegn honum hófust á mánudag. Það varðar starfsemi andspillingasamtaka Navalní sem stjórnvöld skilgreindu sem ólögleg öfgasamtök nýlega. Navalní gæti átt yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsisvist til viðbótar þegar hann verður fundinn sekur.
Navalní hefur verið öflugasti leiðtogi vanmáttugrar stjórnarandstöðu í Rússlandi á undanförnum árum. Samtök hans hafa afhjúpað spillingu æðstu ráðamanna ríkisins og hjálpað kjósendum að nýta atkvæði sín sem best til þess að koma flokki Vladímírs Pútín frá völdum. Þá hefur Navalní skipulagt fjöldamótmæli sem stjórnvöld hafa iðulega bannað.